Skáld á skökkum stað! Nýtt hlaðvarp um Jakobínu Sigurðardóttur rithöfund

Jakobína – Skáld á skökkum stað er nýtt heimildahlaðvarp í þremur hlutum. Það fjallar um rithöfundinn Jakobínu Sigurðardóttur þar sem verk hennar eru sett í stærra samhengi. Þar kemur einnig ýmislegt fleira til sögu eins og Mývatnssveit, kaldastríðsárin, formbyltingin og staða kvenskálda á 20. öld.

 
Jakobína Sigurðardóttir var borin og barnfædd í Hælavík á Hornströndum en flutti í Garð í Mývatnssveit um þrítugt og bjó þar æ síðan. Verk hennar voru afar tilraunakennd og fjölbreytt þrátt fyrir að þau hafi ekki verið mörg en hún gaf meðal annars út skáldsögur, kvæði, smásögur og ævintýri. Hún var afdráttarlaus í sínum pólitísku skoðunum sem kemur skýrt fram í verkum hennar. Hún þurfti að standa fast á eigin fótum í karlaveröld bókmenntanna og var ein þeirra sem ruddi brautina fyrir aðra kvenrithöfunda.
 

Umsjón með þáttunum hafði Valgerður María Þorsteinsdóttir. Hún hefur mikinn áhuga á bókmenntum og er íslenskunemi við Háskóla Íslands. Hlaðvarpið vann hún í sumar í samstarfi við Skútustaðahrepp og Þekkingarnet Þingeyinga í gegnum átaksverkefni Vinnumálastofnunar fyrir háskólanema. Þættina má nálgast á öllum helstu hlaðvarpsveitum, þar með talið Spotify, Apple Podcasts og Google Podcasts. Þeir eru einnig aðgengilegir á YouTube. Hlaðvarpið er í léttum dúr og það er alls ekki nauðsynlegt að hafa lesið verk Jakobínu áður en hlustað er.

Hlustaðu á hlaðvarpið hér!