Finndu leiðina til okkar! #NjótumSaman
Norðurljósahöfuðborg Íslands
Ítarlegri upplýsingar um gönguleiðina, hnit og myndir má finna hér: Wikiloc | Stóru-laugar - Þverá Trail
Frá Stóru-laugum er farið upp fyrir túnið hjá réttinni örlítið lengra en bærinn liggur, skáhalt upp eftir gróinni reiðleið upp á heiðina. Stóru-laugar í Reykjadal er stór jarðeign sem upphaflega er talin hafa verið sama jörð og Litlu-laugar og þá einungis heitið Laugar en klofningur hafi orðið á jörðunum sem talinn er hafa orðið strax á Landnámsöld. Nú er þar rekin ferðaþjónusta.
Útsýnið yfir Reykjadal er virkilega fallegt á þessari leið. Þegar uppá heiðina er komið er gönguleiðin auðveld eftir reiðstíg og hefur mikið og fallegt útsýni til allra átta yfir gróin heiðarlönd. Athugið að fara þarf yfir Þverá upp á heiðinni en vel er hægt að vaða hana skólaus.
Komið er niður hjá Þverá í Laxárdal en Þverá er kirkjustaður Laxdæla. Talið er að Ljótur hofgoði hafi verið fyrsti ábúandinn á Þverá á söguöld en á árunum 1849-1851 byggði Jón Jóakimsson bóndi á Þverá stóran torfbæ sem enn stendur.
Torfbærinn á Þverá er merkileg heimild um íslenska byggingalist en hann er af svokallaðari norðlenskri gerð. Stafnar bæjarins snúa fram á hlað og bakhúsin þvert á framhúsin. Í framhúsunum eru tvær stofur hvoru megin við bæjardyrnar og sunnan við bæinn er stakstæð skemma.
Jón var þekktur fyrir vandvirkni hvort sem það tengdist smíðum eða búskap og var margt á bænum Þverá gert að vandvirkni og eftir hugviti. Meðal annars var kornmylla byggð 1845 og stóð fram yfir aldamótin 1900 og var bæjarlæknum einnig veitt inn í bæinn svo ekki þurfti út til þess að sækja vatn.
Jón byggði einnig kirkju á staðnum árið 1878 í stað torfkirkjunnar sem áður var. Notaði Jón grjót úr Hólaklöppum austan Laxár en það var dregið yfir ísi lagða ánna að veturlagi.
Þverá er merkilegur bær í sögulegu samhengi því þann 20.febrúar 1882 var stofnfundur Kaupfélags Þingeyinga haldinn í stofunni en það er elsta samvinnufélag landsins. Eftirlíking af Þverárstofu er á þjóðlífssýningu í Safnahúsi Menningarmiðstöðvar Þingeyinga á Húsavík þar sem saga félagsins er rakin.
Sögur af hrakningum á Laxárdalsheiði er hægt að rekja til Þverá en á miðri 19.öld urðu tvær vinnukonur frá Þverá úti er þær sóttu mannfönguð að Halldórsstöðum. Af einhverjum ástæðum urðu þær af fylgd heim eftir dansinn og fóru tvær saman af stað áður en varð fullbjart og fór að snjóa í norðaustan átt. Stuttu eftir að þær lögðu af stað skall á hvassvirði. Um hádegi komu tveir vinnumenn að Halldórsstöðum að sækja konurnar í snjókomunni og varð fólki illa við þegar upp komst að konurnar hefðu aldrei að Þverá komið um morguninn. Fannst þá öðrum vinnumanninum eins og hann hefði heyrt óp á leiðinni en talið það vera veðurgnýinn. Upphófst leit að konunum sem stóð yfir í fimm sólarhringa þangað til eldri maður á Þverá dreymdi að hann væri staddur suðvestur á heiði, hjá tveim hólum sem væru áþekkir og mjög áberandi í landslaginu og að konurnar væru að vandra eitthvað við hólana. Þegar leitarmennirnir komu að Skollahólum blöstu við tvær dökkleitar þústir undir barði einu en þar höfðu konurnar leitað skjóls. Þær voru frosnar í hel.
Páll H. Jónsson lýsti reimleikum á Laxárdalsheiði upp frá Þverá þar sem fólk villtist sérstaklega ef það var eitt á ferð. Gat þá fólk villst þó heiðskýrt og gott veður væri og er það rakið til hrakninga vinnukvennana tveggja frá Þverá sem urðu úti.
Norðurljósahöfuðborg Íslands
Visit Mývatn
Mývatnsstofa ehf
660 Mývatn
Ísland
info@visitmyvatn.is