Vaglaskógur

Flestir kannast við Vor í Vaglaskógi, þar sem lindin niðar og birkihríslan grær. Vaglaskógur er í Fnjóskadal sem er vestasti partur Þingeyjarsveitar. Hann er einn stærsti birkiskógur landsins og að margra mati sá fallegasti. Vaglaskógur er útivistarparadís með fjölmörgum gönguleiðum sem henta öllum aldri. Í skóginum og í nágrenni hans eru frábær tjaldsvæði þar sem allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi og friðsældin er engri lík. Í 11 km fjarlægð eru Illugastaðir þar sem hægt er að fara í sund og spila mini-golf og stuttu frá er dýragarðurinn Daladýrð. Ef þú vilt fara í hefðbundið golf er hinn margrómaði Lundsvöllur, eftirlæti golfara, rétt sunnan við Vaglaskóg. 

Í jaðri skógarins finnur þú gömlu bogabrúna sem er ein elsta steinsteypta bogabrú landsins, byggð 1908. Hún er 55 m löng og var sú lengsta á Norðurlöndunum um langt skeið. Það er fátt sem toppar fallega kvöldsól á brúnni og við mælum með því að rölta yfir hana!